1.maí með öðru sniði í ár!
Dagskrá 1. maí með öðru sniði í ár
Í fyrsta skipti síðan 1923 getur íslenskt launafólk ekki safnast saman á 1. maí til að leggja áherslu á kröfur sínar. Við þessu er brugðist með útsendingu frá sérstakri skemmti- og baráttusamkomu sem flutt verður í Hörpu að kvöldi 1. maí og sjónvarpað á RÚV (kl. 19:40).
Landsþekktir tónlistarmenn, skemmtiatriði og hvatningarorð frá forystu verkalýðshreyfingarinnar einkenna þennan viðburð sem verður að teljast sögulegur. Meðal listamanna sem koma fram eru Ragnheiður Gröndal, Bubbi Morthens, Amabadama, Jói P og Króli, Ellen Kristjáns og Auður, Jakob Birgisson uppistandari, KK og Lúðrasveit verkalýðsins.
Þar sem engar verða kröfugöngurnar verður hægt að búa til sitt eigið kröfuspjald á Facebook og sýna stuðning sinn við baráttu verkalýðshreyfingarinnar í verki með því að merkja prófílmyndina sína 1. maí. Við hvetjum til þátttöku í baráttudeginum á Facebook og svo til áhorfs á RÚV um kvöldið.
Að dagskránni í sjónvarpinu og viðburðum á samfélagsmiðlum standa eftirfarandi heildarsamtök launafólks: ASÍ, BHM, BSRB og KÍ.